Hrossarækt og-sala

Hrossarækt í Kálfholti

Hjónin Jónas Jónsson og Sigrún Ísleifsdóttir hafa búið í Kálfholti í Ásahreppi frá árinu 1965 en markviss hrossarækt hófst þar í kringum 1985. Í dag standa að ræktuninni ásamt þeim hjónum tvö af börnum þeirra, þau Eyrún og Ísleifur, ásamt fjölskyldum sínum, auk Ingunnar Birnu sem er barnabarn þeirra Jónasar og Sigrúnar.

Ræktunartakmark búsins er að rækta viljug, framfalleg og fasmikil hross með hreinan gang og góðan fótaburð, sem eru þæg og auðveld í tamningu.

Helstu ættmæður búsins eru fjórar. Það eru þær Stjarna IS1976286560, undan Loga frá Borgum og Blesu frá Kirkjubæ, Hylling IS1976286570, undan Leirljósum frá Hveragerði og Sibbu frá Eiríksstöðum, Blíða IS1982286560, undan Blæ frá Hellu og Flugu frá Voðmúlastöðum, og Löpp IS1986286565, undan Byr frá Skollagróf og Flugu frá Voðmúlastöðum.

Þeir hestar sem hafa haft hvað mest áhrif á ræktunina eru Hrafnssonurinn Byr IS1981188186 frá Skollagróf sem notaður var í kringum 1985 og Asi IS1990186565 frá Kálfholti, undan Stjörnu IS1976286560 og Feyki IS1977157350 frá Hafsteinsstöðum. Asi var notaður allt frá 1993 til 2012 en þá um haustið var hann felldur.

Helstu afrekshross frá Kálfholti

Hrossaræktarbúið í Kálfholti státar af því að hafa ræktað tvo landsmótssigurvegara í B-flokki gæðinga og er það líklega einsdæmi. Það eru þau Röðull  IS1997186563 sem sigraði árið 2008 og Kjarnorka IS2001286570 sem sigraði 2011.