Um okkur

Hjá fjölskyldunni í Kálfholti snýst allt um hesta – þannig er það bara!

Hjónin Eyrún Jónasdóttir og Steingrímur Jónsson í Kálfholti 2 standa fyrir hestaferðunum, með dyggri aðstoð barna sinna, Kristrúnar og Jónasar, og leggja einnig stund á tamningar og hrossarækt, ásamt Ísleifi Jónassyni, bróður Eyrúnar. Ísleifur starfar við hrossarækt, tamningar og reiðkennslu og býr einnig í Kálfholti með fjölskyldu sinni. Ingunn Birna Ingólfsdóttir, systurdóttir þeirra Eyrúnar og Ísleifs, býr sömuleiðis og starfar í Kálfholti, við tamningar, þjálfun og kennslu.

Foreldrar Eyrúnar og Ísleifs, hjónin Jónas Jónsson og Sigrún Ísleifsdóttir, hafa stundað búskap og hrossarækt á bænum allt frá árinu 1965, svo óhætt er að segja að afkomendurnir hafi fengið hestaáhugann með móðurmjólkinni!

Eyrún Jónasdóttir og Steingrímur Jónsson í Kálfholti 2 eru stofnendur og eigendur Kálfholts hestaferða. Steingrímur hefur lokið búfræðinámi frá Bændaskólanum á Hvanneyri og hefur mjög fjölbreytta reynslu af hestamennsku; hestaferðum, tamningum og járningum. Eyrún er fædd og uppalin í Kálfholti og hefur alla tíð verið nálægt hrossum. Hún lauk tveggja ára Reiðmannsnámi frá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri vorið 2012. Hún starfar einnig sem tónlistarkennari og kórstjóri. Eyrún og Steingrímur vinna saman að öllum undirbúningi ferða og námskeiða í Kálfholti. Þau þjálfa hestana, sjá um bókanir og leggja mikla áherslu á öryggi og vellíðan gestanna. Þá leggja þau sig að sjálfsögðu fram um að mæta þörfum hvers einstaklings. Kálfholt hestaferðir eru með ferðaskrifstofuleyfi frá Ferðamálastofu.

Ísleifur Jónasson og Ingileif Guðjónsdóttir búa í Kálfholti ásamt dætrum sínum. Ísleifur er fæddur og uppalinn í Kálfholti og Ingileif er frá Grímsstöðum í V-Landeyjum. Búreksturinn samanstendur af hrossarækt, sauðfjárrækt og laxveiðum, auk reksturs tamningastöðvar. Ísleifur hefur lengi fengist við tamningar, þjálfun og sýningu hrossa. Árið 2007 útskrifaðist hann sem reiðkennari frá Háskólanum á Hólum og hefur starfað talsvert við kennslu síðan, m.a. við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri.

Ingunn Birna Ingólfsdóttir er uppalin í kringum hross og hefur allt frá blautu barnsbeini stundað hestamennsku af kappi; útreiðar, þjálfun og keppni. Strax á unglingsaldri fór hún að taka að sér hross í tamningu og að framhaldsskóla loknum hafa tamningar og þjálfun verið hennar aðalstarf. Haustið 2008 hóf hún nám við Háskólann á Hólum og lauk þar tveggja ára námi vorið 2010. Þá gerði hún hlé á náminu og hélt áfram að afla sér reynslu og þekkingar við tamningu og þjálfun hrossa. Hún lauk síðan reiðkennaranámi frá Háskólanum á Hólum vorið 2013 og hóf þá störf við tamningar, þjálfun og kennslu heima í Kálfholti. 

Jónas Jónsson og Sigrún Ísleifsdóttir hafa stundað hrossarækt í Kálfholti allt frá árinu 1965. Segja má að þau hafi lagt grunninn að þeirri ræktun sem nú fer þar fram. Í gegnum tíðina hafa þau notað hestinn hvort tveggja til gagns og gamans, hvort sem er í smalamennsku á fjöllum eða í hestaferðum með fjölskyldunni. Þá hefur Jónas tekið þátt í öllum ræktunarbúsýningum búsins og síðast á Landsmóti hestamanna á Hellu 2008. Þau hjón eru nú hætt búskap en eiga ennþá nokkur hross sér til ánægju.